Ákvörðun um söluna verði mögulega dregin til baka

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ef vel gengur að „leita lausna á rekstrarvanda gæslunnar“ á ríkisstjórnarfundinum sem fer fram í dag verður hægt að draga til baka ákvörðun um sölu á eft­ir­lits­flug­vél­inni TF-SIF. Þetta staðfestir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is.

„Eftir fundi morgunsins með þingnefndum og samtölum við ráðherra að þá finn ég það að það er mikill áhugi bæði meðal þingmanna og einhverra ráðherra að leita lausna á rekstrarvanda gæslunnar og ég geri þá ráð fyrir að það verði rætt á vettvangi ríkisstjórnar.

Það myndi enginn fagna því meira heldur en ég ef að slík lausn fengist og væri þá eitthvað í samræmi við þær beiðnir sem að við lögðum fyrir á sínum tíma um fjárveitingar til Landhelgisgæslunnar á þessu ári. Ef að þetta gengur eftir er hægt að draga til baka þessa ákvörðun um sölu á þessari flugvél,“ segir Jón.

Á von á skýrslu á næstu vikum

Hann telur þó að áfram séu tækifæri til hagræðingar í rekstrinum.

„Á sama tíma hvílir á okkur sú ábyrgð að leita allra leiða í hagvæmni rekstri hjá Landhelgisgæslunni líkt og hjá öðrum ríkisstofnunum. Það er í gangi vinna á úttekt á rekstri gæslunnar með utanaðkomandi sérfræðingum og í samvinnu við forystufólk Landhelgisgæslunnar og ég á von á skýrslu um það á næstu vikum.

Þá sjáum við hvaða ráðstafana við getum gripið til í framtíðinni. Mitt mat er að það séu tækifæri í framtíðinni til hagræðingar í rekstrinum og við munum auðvitað vinna að því áfram.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert