„Alvarleikinn hefur skýrst,“ segir Bjarni Jónsson, formaður utanríkismálanefndar, um fund nefndarinnar með Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra sem fór fram í morgun.
Tilefni fundarins eru áform dómsmálaráðuneytisins um sölu björgunar- og eftirlitsvélar Landhelgisgæslunnar TF-SIF. Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, var einnig boðaður á fundinn.
Utanríkismálanefnd mun kalla eftir mati á hvaða áhrif salan á flugvélinni kann að hafa. Þá hefur Bjarni óskað eftir fundi með utanríkisráðherra fyrir hönd nefndarinnar vegna málsins.
„Við ræddum aðdraganda þessara áforma og líka mikilvægi þessarar einu og sérútbúnu vélar okkar. Þetta var mjög upplýsindi og góður fundur með báðum aðilum. Hreinskiptar og góðar samræður. Ég met það svo að fundi loknum að það liggi alveg kristaltært fyrir að áform sem þessi geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir okkur, hvað varðar þjóðaröryggi og líka þessi verkefni sem vélin þarf að sinna á sviði björgunar, sjúkraflugs, eftirlits og rannsókna,“ segir Bjarni, sem kveðst jafnframt ekki hafa tekið eftir miklum stuðningi við áform ráðherra innan þingsins.
Bindur hann vonir við að málið verði leyst með farsælum hætti. „Ég sé ekki fyrir mér að Alþingi geti sæst á slíka niðurstöðu. Það er mitt mat.“
Bjarni undirstrikar enn fremur mikilvægi þess að samráð sé haft við alla hlutaðeigandi aðila áður en ákvarðanir á borð við þessa séu teknar. Eins og komið hefur fram kom salan á vélinni mörgum í opna skjöldu. Sjálfur sagðist Bjarni fyrst hafa lesið um áformin í fréttamiðlum.
„Við höfum lagt áherslu á það núna í endurskoðun á okkar þjóðaröryggisstefnu að treysta á þessa samráðsferla milli ólíkra viðbragðsaðila. Það er algjörlega óviðunandi aðdragandi að þessu.“
Þá bendir Bjarni einnig að dómsmálaráðuneytinu beri að forgangsraða hvernig fjárheimildum sé ráðstafað til verkefna innan ráðuneytisins.
„Þarna er verið að stilla þessu upp þannig að valið sé að að selja þessa vél, eða þyrlu eða varðskip. Það er náttúrulega óviðunandi að stilla því eingöngu þannig upp.“