Ólafur Pálsson
Daníel Isebarn, lögmaður Eflingar, segir frávísun félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins á stjórnsýslukæru Eflingar vegna miðlunartillögu ríkissáttasemjara ekki hafa nein áhrif á framhaldið þar sem Efling hafi nú þegar skotið málinu til Héraðsdóms Reykjavíkur.
Hann segir dómsstjóra í héraðsdómi vera að fara yfir málið og að leggja mat á hvort það fái flýtimeðferð.
Það er stór dagur í dag fyrir Daníel og Eflingu en fyrirtaka hófst í Félagsdómi klukkan 11 í máli Samtaka atvinnulífsins gegn ASÍ og SGS vegna Eflingar. Eftir hádegi er svo komið að innsetningarmáli ríkissáttasemjara vegna afhendingu félagaskrár Eflingar, sem er forsenda þess að atkvæðagreiðsla geti hafist um miðlunartillögu hans.
Daníel segir tilfinninguna fyrir deginum góða.
„Við erum með mjög góðan málstað og erum mjög bjartsýn. Það er fínt að fá dómstóla til að skoða málið í heild en ekki fá eingöngu einhverjar fullyrðingar og gífuryrði í fjölmiðlum.“