Gegn þjóðaröryggi og alþjóðlegum skuldbindingum

TF-SIF var sérhönnuð til eftirlits-, leitar-, björgunar- og sjúkraflugs á …
TF-SIF var sérhönnuð til eftirlits-, leitar-, björgunar- og sjúkraflugs á Norður-Atlantshafi auk þess að sinna mengunarvörnum. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) hefur sent frá sér ályktun vegna ákvörðunar dómsmálaráðherra um að selja flugvél Landhelgisgæslu Íslands, TF SIF, sem er sérútbúin til leitar og björgunar.

FÍA segir ákvörðun ráðherra óforsvaranlega og ólöglega. Þá segir ákvörðunina einnig óverjanlega með tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga og samstarfs íslenska ríkisins við önnur ríki og að hún standist ekki skoðun að þjóðarrétti og vegi að þjóðaröryggisstefnu lýðveldisins Íslands.

Ekki haft samráð við Alþingi

Í ályktun FÍA segir að ekki hafi verið haft samráð við Alþingi um fyrirhugaða sölu og í því ljósi megi vænta að ráðherra hafi heldur ekki upplýst þjóðaröryggisráð um áform sín áður en hann réðist til verka og þannig hafi hann brugðist skyldum sínum samkvæmt lögum um þjóðaröryggisráð.

FÍA segir að hvergi hafi komið fram hvernig ráðherra ætli að uppfylla skyldur ríkisins varðandi öryggisgæslu og björgun á hafi úti í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, samninga við önnur ríki og ákvæði íslenskra laga.

Getur ekki uppfyllt skyldur sínar

Þá segir í ályktun félagsins að Landhelgisgæslan geti ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt lögum um Landhelgisgæsluna og alþjóðlegar skuldbindingar án sérútbúinnar flugvélar enda sé um að ræða eyþjóð með leitar- og björgunarsvæði sem telur 1,9 milljónir ferkílómetra og um það bil 700 sjómílur séu frá Reykjavíkurflugvelli í NA & SV hornin sem marka ytri mörk svæðisins sitthvoru megin.

FÍA segir Ísland bera ábyrgð á öryggisgæslu og löggæslu, leit og björgun á þessu svæði. Félagið segir að það að hafa ekki tiltæka sérútbúna flugvél líkt og TF-SIF til leitar á svona stóru svæði, þar sem umferð bæði flugvéla og skipa sé mikil, og heldur áfram að aukast sé með öllu óásættanlegt og vegi augljóslega gegn þjóðaröryggi og alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins.

Þá segir að hvorki í lögum um Landhelgisgæsluna né í lögum um loftferðir sé að finna heimildir til að framselja skyldur stofnunarinnar um öryggisgæslu og löggæslu á hafinu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, samninga við önnur ríki og ákvæði laga.

Brot á kjarasamningi

Þá víkur félagið að uppsögnum flugmanna vélarinnar án heimildir um sölu vélarinnar frá Alþingi. FÍA segir ekki hægt að túlka þær öðruvísi en grimma atlögu að þeim starfsmönnum Landhelgisgæslunnar sem fela í sér brot á kjarasamningi FÍA við Landhelgisgæsluna og starfsaldursreglum hans.

FÍA segist að sjálfsögðu munu standa vörð um störf þeirra og leita atbeina Félagsdóms ef þess gerist þörf, samkvæmt ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert