Stefnt er að gjaldtöku á bílastæðunum við Háskóla Íslands haustið 2023. Í dag eru um 2.000 stæði við Háskóla Íslands þar sem nemendur og starfsfólk hafa fengið að leggja endurgjaldslaust.
Með gjaldtökunni skapast m.a. meira svigrúm til að bjóða upp á betri samgöngustyrki fyrir starfsmenn. Unnið er að U-passa, árskorti eða misseriskorti í strætó auk þess sem ný aðgangsstýrð hjólaskýli munu rísa.
Þetta kom fram í máli Hrundar Ó. Andradóttur, formanns skipulagsnefndar Háskóla Íslands, á málþingi á vegum Verkfræðingafélags Íslands.
Hrund telur Borgarlínu vera grunnhlekk í framtíðarsýn Háskóla Íslands sem gengur út á að skapa vistvænan og sjálfbæran „kampus“ þar sem mannfólk er í forgrunni.
Þá sé mikilvægt að þétta kjarnastarfsemina og á sama tíma upphefja græn svæði í Vatnsmýrinni og virkja tengingar við miðbæ, aðliggjandi byggð, yfir Suðurgötuna og yfir í Heilbrigðisvísindasvið.
Hrund telur skilvirkar almenningssamgöngur vera nauðsynlegar til að draga úr vægi einkabílsins og að markmið um vistvænan og sjálfbæran kampus náist. Borgarlínan leiki þar lykilhlutverk en í dag nýtir einungis lítill hluti starfsmanna strætó, 8% starfsmanna og 14% nemenda.
„Borgarlínan er grunnhlekkur í framtíðarsýninni en með henni en mikilvægt er að biðtíminn á stöðvunum sé ekki langur. Það er krítískt að geta verið almenningssamgöngur þar sem ekki þarf að bíða mjög lengi. Með nýju leiðaneti borgarlínu myndu brottfarir á klst. á háannatíma fjölga úr 4 í 26 í hvora átt,“ segir Hrund.