Tilraun til manndráps og farið fram á 150 milljónir

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í komandi viku.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í komandi viku.

Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps, en til vara fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, fyrir utan veitingarstaðinn Moe‘s bar í Seljahverfi í Reykjavík. Er maðurinn ákærður fyrir að hafa sparkað í mann á fimmtugsaldri þar sem hann stóð utandyra efst í tröppum staðarins á annarri hæð þannig að hann féll niður 23 steinsteyptar tröppur.

Maðurinn hlaut höfuðkúpubrot, dreifðar blæðingar í og við heila og alvarlegan og varanlegan heilaskaða. Felur það bæði í sér hugræna skerðingu, máltruflanir og takmarkaðan málskilning. Fer maðurinn sem fyrir árásinni varð fram á 150 milljónir króna í miska- og skaðabætur vegna árásarinnar.

Í janúar var greint frá því að varðhald yfir árásarmanninum hefði verið framlengt, en í málsatvikalýsingu héraðssaksóknara með gæsluvarðhaldsbeiðninni kemur fram að í myndskeiði úr ör­ygg­is­mynda­vél sjá­ist þegar ger­andi tek­ur til­hlaup og spark­ar af miklu afli í bak brotaþola, sem var á leið út af staðnum. Af mynd­skeiðinu verði ekki annað ráðið en að skýr ásetn­ing­ur hafi verið að baki verknaðinum.

Maðurinn var upphaflega settur í öndunarvél, en var síðar tekinn úr henni, en þurfti þó að fá tengingu í öndunarveg á hálsinum. Kom jafnframt fram að maðurinn þurfi fulla umönnun, geti ekki borðað eða kyngt og sé með næringarslöngu niður í maga. Þá hafi hann verið með löm­un­ar­ein­kenni hægra meg­in en geti þó hreyft út­limi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka