Vill falla frá sölu TF-SIF

Líklegt er að fallið verði frá sölu TF-SIF.
Líklegt er að fallið verði frá sölu TF-SIF. Samsett mynd

Dómsmálaráðherra reiknar með því að fallið verði frá þeim áformum að selja eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF.

Ríkisstjórnin fundaði um málið í dag en ráðherrann hafði áður ákveðið að selja vélina til að hagræða í rekstri Landhelgisgæslunnar.

Ráðherrar hreyft við andmælum

„Viðbrögð við þessu hafa verið þannig að bæði alþingismenn og ráðherrar hafa lýst vonbrigðum með þetta. Ég hef fengið þau skilaboð mjög ákveðið að menn vilji leysa þetta með öðrum hætti fyrir þetta rekstrarár,“ segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is. 

Ráðherrann segist fagna því mjög að þurfa ekki að grípa til þessarra aðgerða í samstarfi við Landhelgisgæsluna við þær aðstæður sem uppi eru.

Landhelgisgæslan hafði beðið um 7-800 milljónir umfram það sem fékkst í fjárlögum og reiknar Jón með því að framlög til Gæslunnar verði aukin, verði fallið frá sölu vélarinnar.

Endanleg ákvörðun liggi fyrir á næstu dögum

„Okkar mat er að það þurfi þá nokkur hundruð milljónir til þess að standa undir óbreyttum rekstri. Ég heyri áhuga og vilja í þinginu og hjá ráðherrum til að mæta þessum erfiðleikum fyrir þetta rekstrarár. Við fögnum því,“ segir Jón. Hann vekur þó athygli á að vélin þyki óhagkvæm og því verði unnið að því að bæta þann rekstrarþátt.

„Á sama tíma höldum við áfram þeirri vinnu sem við höfum þegar hafið, um það að auka hagkvæmni í þessum rekstrarþætti Gæslunnar.“ 

Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um að fallið verði frá sölu vélarinnar en líklegt er að hún liggi fyrir á næstu dögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert