„Ég get mögulega lægt einhverjar öldur“

Elva Hrönn býður sig fram gegn sitjandi formanni.
Elva Hrönn býður sig fram gegn sitjandi formanni. Ljósmynd/Aðsend

„Það eru 40.000 þúsund félagar í VR. Þetta er stór og breiður og fjölbreyttur hópur. Mér finnst eins og við séum bara að taka brot af þessum hópi og tala þeirra máli á meðan hinir hóparnir eru útundan,“ segir Elva Hrönn Hjartardóttir, frambjóðandi til formanns VR, í samtali við mbl.is.

Segir hún núverandi formann þó hafa sett mörg góð mál á dagskrá sem hún myndi vilja fylgja eftir nái hún kjöri.

Í gær tilkynnti Elva um framboð sitt gegn sitjandi formanni, Ragnari Þór Ingólfssyni. Elva starfar á skrifsstofu VR en á meðan framboðinu stendur mun hún starfa í fjarvinnu. 

Millitekjuhópurinn gleymst

Spurð hvaða hópur það sé helst sem hún telur hafa gleymst segir Elva:

„Ef við ætlum að draga fólk í dilka þá er það þessi millitekjuhópur sem lendir alltaf á milli skips og bryggju.“

Ítrekar hún að í VR sé stór og fjölbreyttur hópur fólk, tekjudreifingin sé því mjög mikil. 

„Við þurfum líka að verja hugmuni þeirra sem eru með þessar meðaltekjur og sem að eru að koma sér fyrir í lífinu og eru kannski komin á einhvern ákveðinn stað. Við þurfum að sjá til þess að þetta fólk haldi sínu á meðan við erum að vinna að því að þau sem að hafa það verst fái líka að komast þangað,“ bætir Elva við.

Getur lægt öldur

„Ég get mögulega lægt einhverjar öldur,“ segir Elva.

Á síðustu misserum hafa átök geisað innan verkalýðshreyfingarinnar og verkalýðsforingjar skipt sér í lið. Elva telur það ekki vera hlutverk verkalýðsforingja að taka þátt í persónulegum átökum.

„Ég þekki margt fólk innan verkalýðshreyfingarinnar. Þessi átök hafa vissulega komið mjög mikið við mig. Mér hefur þótt ofboðslega erfitt að horfa upp á þessi átök og þessa aðför að ASÍ. Samstaða launa- og verkafólks almennt er svo mikilvæg. Það er í samstöðunni sem að við náum okkar fram,“ segir Elva og bætir við:

„Það sem ég vil heitast er að við fáum vinnufrið. Að leggja persónuleg átök og árekstra til hliðar. Þetta verkefni sem við stöndum frammi fyrir er bara svo miklu stærra en það.“

Ekki markmiðið þegar hún réði sig til VR

Eins og segir tilkynnti Elva um framboð sitt í gær. Segist hún hafa fengið gífurlega góð viðbrögð.

„Ég auðvitað vonaðist eftir góðum viðbrögðum en ég átti eiginlega ekki von á þeim viðbrögðum sem ég hef fengið.“

Hún segir það hafa blundað í sér í smá tíma að bjóða sig fram en það hafi þó vissulega ekki verið markmiðmið að bjóða sig fram til formanns þegar hún réði sig til VR.

Hættir hjá VR hljóti hún ekki kjör

Eftir samtal við sína yfirmenn var komist að þeirri niðurstöðu að best yrði að Elva myndi segja starfi sínu lausu tapi hún kosningabaráttunni.

„Það er okkar mat að ég snúi ekki aftur nema bara til að klára mín verkefni. Þannig að það er margt í húfi,“ segir Elva og bætir við:

„Þetta var alls ekki auðveld ákvörðun en þegar réttlætiskenndin og baráttuhjartað yfirgnæfir þá bara þarf að hlusta á það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert