„Í þeim kosningum sem ég hef farið í hef ég alltaf reiknað með mótframboði. Það var ekkert öðruvísi núna,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is um mótframboð Elvu Hrannar Hjartardóttur til formanns VR.
Elva tilkynnti framboð sitt í gær. Hún starfar á skrifstofu VR en mun sinna starfi sínu í fjarvinnu á meðan kosningabaráttan er í gangi.
Ragnar tilkynnti framboð sitt í síðasta mánuði.
Ragnar Þór hefur verið formaður VR síðan árið 2017. Þá sigraði hann sitjandi formann, Ólafíu B. Rafnsdóttur. Hún hafði gegnt embættinu frá árinu 2013.
Kosning til formanns VR fer fram á tveggja ára fresti. Árið 2019 var Ragnar sjálfkjörinn þar sem enginn bauð sig fram gegn honum.
Árið 2021 þurfti Ragnar aftur á móti að verja formannsstól sinn þar sem Helga Guðrún Jónasdóttir bauð sig fram gegn honum.
Þykir þér óþægilegt að starfsmaður VR bjóði sig fram gegn þér?
„Nei alls ekki. Ég lít ekki á það þannig. Ég lít á það þannig að ég er kjörinn formaður félagsins og alveg sama hvaðan mótframboðið kemur þá tek ég þann slag. Það í sjálfu sér breytir mig engu,“ segir Ragnar.
Í samtali við mbl.is í dag sagði Elva að hún myndi segja starfi sínu lausu næði hún ekki kjöri. Ákvörðunina tók hún í samráði við yfirmenn sína.
Spurður hvort hann hafi eitthvað komið að þessari ákvörðun segir Ragnar:
„Alls ekki. Þetta er alfarið hennar ákvörðun í samtali við sína yfirmenn. Við höfum lagt áherslu á það í stjórninni að hafa skýr skil á milli skrifstofunnar og stjórnarinnar, meðal annars höfðum sett okkur skýrar vinnureglur hvað þetta varðar.“
Í samtali við mbl.is í dag sagði Elva að henni finnist millitekjufólk hafa gleymst innan VR.
„Það eru 40.000 þúsund félagar í VR. Þetta er stór og breiður og fjölbreyttur hópur. Mér finnst eins og við séum bara að taka brot af þessum hópi og tala þeirra máli á meðan hinir hóparnir eru útundan,“ sagði Elva.
Ragnar hafnar þessu og segir að kröfugerð VR í síðustu kjarasamningum tala sínu máli.
„Ég get ekki tekið undir þessi sjónarmið að við séum að skilja millitekjuhópa eftir. Staðreyndirnar tala allt öðru máli og sérstaklega kröfugerðin.“