Kanadísk söngkona, Jessica Pearson, sem söng fyrir farþega flugvélar sem sat föst á Keflavíkurflugvelli í lok janúar, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna líflátshótana sem henni hafa borist í kjölfarið.
Myndband af söngatriði Jessicu og hljómsveitar hennar í vél Icelandair fór um eins og eldur í sinu vestanhafs, þar á meðal á TikTok, þann 1. febrúar.
Einhverjir mislásu í myndbandið og héldu að Jessica og félagar hennar hefðu, upp á sitt eindæmi, byrjað að syngja í vélinni og haldið því til streitu í tíu klukkustundir, að því er fram kemur í yfirlýsingu Jessicu.
Hún vilji leiðrétta þann misskilning.
„Þessi flökkusaga olli hörðum viðbrögðum og hatrið þróaðist út í líflátshótanir. Myndbandið var tekið niður í kjölfarið,“ segir í yfirlýsingu Jessicu. Birti hún það á TikTok og ritaði undir:
„Við sátum föst í flugvélinni á Íslandi í tíu klukkustundir vegna 115 kílómetra vindhraða. Sem betur fer vorum við með hljóðfærin okkar um borð og ákváðum að hefja fjöldasöng.“
Eftir að farþegar höfðu beðið í kyrrstæðri vélinni í sex klukkustundir bað flugstjórinn Jessicu og félaga hennar að taka nokkur lög. Þær hafi gert það með glöðu geði og fengið lof fyrir.
„Ég er steinhissa og vonsvikin yfir því að gleðistund hafi breyst í illkvittna árás. Hatrið er óskiljanlegt. Mér var sagt að fyrirfara mér vegna þess að ég spilaði lög fyrir fólk um borð í flugvél. Það er sturlun,“ er haft eftir Jessicu í yfirlýsingunni.
Þar er tekið fram að hún sé atvinnutónlistarmaður og virt í tónlistarsamfélaginu, í Kanada og víðar.
Eftir að farþegar komust út úr vélinni var klappað fyrir Jessicu og félögum hennar, tekin myndbönd og þeim gefið súkkulaði í þakklætisvott.
„Þetta var falleg minning sem farþegar og áhafnarmeðlimir sköpuðu saman, vegna þess að tónlistin tengir okkur öll. Um það snýst sagan,“ segir í lok yfirlýsingarinnar.
Icelandair birti myndbandið á Facebook-síðu sinni daginn eftir atvikið og fékk jákvæð viðbrögð.