„Ég hafði ekkert heyrt af þessu, aldrei nokkurn tímann, og var óneitanlega hissa. Þetta er auðvitað bráðfyndið. Maður er náttúrlega söngvari með athyglisbrest og þetta er augljós sönnun fyrir því,“ segir Gunnar Guðbjörnsson óperusöngvari.
Gunnar uppgötvaði fyrir tilviljun á dögunum að upptaka á óperunni Tannhäuser eftir Wagner sem hann tók þátt í upp úr aldamótunum hlaut á sínum tíma Grammy-verðlaunin sem besta óperuupptakan árið 2003. Þar söng Gunnar hlutverk Walthers von der Vogelweide. Upptakan var gerð fyrir Teldec en upptökur þess útgáfufyrirtækis eru í dag í eigu Warner Music Group og segir Gunnar að upptakan sé fáanleg undir þess merki.
„Ég hefði gjarnan viljað vita af þessu fyrir 20 árum síðan. Þá var maður á fullu í bransanum og að markaðssetja sig,“ segir Gunnar sem var að grúska á netinu þegar hann rakst á þessa upphefð sem hann hafði aldrei fengið nokkurt veður af. Grammy-verðlaunin eru, sem kunnugt er, einhver mesta upphefð sem tónlistarfólki getur hlotnast.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.