Femínistar þurfi ekki að styðja Sólveigu Önnu

Sóley Tómasdóttir er femínisti.
Sóley Tómasdóttir er femínisti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þú þarft ekki að styðja Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, þótt þú sért femínisti.

Þetta er kjarni nýrrar greinar Sóleyjar Tómasdóttur, fyrrverandi borgarfulltrúa Vinstri grænna, sem hún birtir á vefsíðu sinni.

Greinin er svar við grein Stefáns Ólafssonar, prófessors emeritus við HÍ og starfsmanns Eflingar, þar sem hann segir að allir femínistar eigi að styðja Sólveigu Önnu.

Ekki einn hópur með eina skoðun

Í grein sinni segir Stefán Sólveigu Önnu ekki hafa notið sömu virðingar og aðrir verkalýðsforingjar. Sóley efar það ekki. Hún segir þó ekki rétt að krefja alla femínista um að vera á sömu skoðun.

„Femínistar eru nefnilega ekki einn hópur með eina skoðun. Femínísk hugmyndafræði er flókin og margþætt. Hún býður upp á fjölbreytt sjónarhorn, baráttuaðferðir og leiðir. Þó femínistar eigi það sameiginlega markmið að uppræta karllægt valdakerfi, þá er ekki hægt að krefja alla femínista um að finnast eitthvað, beita sér fyrir einhverju eða styðja einhverja,“ skrifar Sóley.

Stefán starfar á skrifstofu Eflingar.
Stefán starfar á skrifstofu Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki til í einstaklingsdýrkun

Stefán segir notað gegn Sólveigu Önnu að hún tali beinskeytt og sé stundum hvöss. Hann telur það sérstakt þar sem að „í karlaheimi fortíðar“ nutu þeir sem sem töluðu með þessum hætti gjarnan virðingar. Þá sé talmáti Sólveigar Önnu meira notaður gegn henni en ef um karl væri að ræða.

„Krafa Stefáns er í anda karlaheims fortíðar. Guðmundur Jaki var verkalýðsforkólfur á seinni hluta síðustu aldar. Þá þóttu konur kannski töff ef þær höguðu sér eins og karlar. Þá þótti kannski í lagi að þagga niður í og úthýsa fólki sem spurði gagnrýnna spurninga á vinnustaðnum og þá þótti kannski í lagi að gamall karl segði femínistum hvað þeir ættu að gera. Ekki í dag.

Þó ég telji mikilvægt að standa með konum í karllægum geirum, þá geri ég það ekki skilyrðislaust. Ég er ekki til í þá einstaklingsdýrkun sem Stefán leggur til. Mér hugnast illa karllæg átakasækni og líður ekki vel að sjá verkalýðsfélög haga sér með sama hætti og talsmenn atvinnurekenda. Og talandi um það, þá finnst mér framkoma Sólveigar Önnu við samstarfsfólk sitt hjá Eflingu vera óboðleg. Það er því af málefnalegum ástæðum sem ég hef ákveðið að verða ekki við ákalli Stefáns,“ skrifar Sóley.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert