„Við erum að lesa úrskurðinn yfir núna og tökum síðan ákvörðun um hvað verður, hvort hann verði kærður til Landsréttar,“ segir Karl Ingi Vilbergsson saksóknari í hryðjuverkamálinu svokallaða í samtali við mbl.is.
Dómari Héraðsdóms Reykjavíkur vísaði ákæruliðum eitt og tvö frá en þeir vísa að brotum er snúa að undirbúningi hryðjuverka.
Lögmenn beggja ákærðu fóru fram á frávísun á þeim brotum er snúa að undirbúningi hryðjuverka vegna óskýrs orðalags í ákæru.
Karl Ingi bendir á að lög heimili ákæruvaldi að gefa út nýja ákæru. Það yrði þó ekki gert fyrr en eftir úrskurð Landsréttar, ef úrskurður héraðsdóms verður kærður þangað.
„Við erum bara núna að reyna glöggva okkur á þessum úrskurði,“ segir hann að lokum.