Heimildir ríkissáttasemjara ekki óumdeildar

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Magnús M. Norðdahl, lög­fræðing­ur Alþýðusam­bands Íslands, seg­ir ekki rétt að mat rík­is­sátta­semj­ara skuli eitt ráða því hvort miðlun­ar­til­lögu megi leggja fram í skiln­ingi laga um stétt­ar­fé­lög- og vinnu­deil­ur. Grein eft­ir Magnús birt­ist á vef ASÍ í dag.

Í grein­inni seg­ir hann að ýmis skil­yrði þurfi að upp­fylla og að rök­styðja þurfi fram­lagn­ingu slíkr­ar til­lögu og síðast en ekki síst að velja rétta tím­ann til fram­lagn­ing­ar­inn­ar.

Báðir aðilar þurfa að gefa nokkuð eft­ir

Magnús M. Norðdahl, lögfræðingur ASÍ.
Magnús M. Norðdahl, lög­fræðing­ur ASÍ. Ljós­mynd/​mbl.is

Magnús seg­ir að upp­ástunga rík­is­sátta­semj­ara um lausn þurfi að vera með þeim hætti að báðir aðilar deil­unn­ar gefi nokkuð eft­ir og hann seg­ir að rík­is­sátta­semj­ari þurfi að telja til­lögu sína lík­lega til sátta.

Hann vill meina að ef þessi skil­yrði séu ekki upp­fyllt beri rík­is­sátta­semj­ara að fara var­lega með heim­ild­ir sín­ar og gæta þess að deil­an sé, eins og hann orðar það, „nægi­lega þroskuð“ og að aðilum hafi tek­ist að þrýsta með raun­veru­leg­um hætti á kröf­ur sín­ar til dæm­is með beit­ingu þving­unar­úr­ræða á borð við vinnu­stöðvan­ir.

Þarf að þykja miðlun­ar­til­laga lík­leg til sátta

„Upp­haf­leg­ur til­gang­ur með heim­ild­um sátta­semj­ara voru og eru enn, að hann hef­ur rétt til „ ...að bera fram upp­ástung­ur um íviln­an­ir af beggja hálfu, sem lík­leg­ar væru til að draga til sátta. Þyki hon­um lík­legt til sátta, get­ur hann borið fram miðlun­ar­til­lögu,..“ eins og það var orðað 1925.

Í gild­andi lög­um hef­ur orðalagið verið ein­faldað en í 27.gr. seg­ir nú: „Ef samn­ingaum­leit­an­ir sátta­semj­ara bera ekki ár­ang­ur er hon­um heim­ilt að leggja fram miðlun­ar­til­lögu til lausn­ar vinnu­deilu.“ Við all­ar laga­breyt­ing­ar síðan 1925 þ.e. 1938, 1978 og 1996 kem­ur fram að eng­ar efn­is­breyt­ing­ar sé verið að gera á þess­ari miðlun­ar­heim­ild sátta­semj­ara sem reynd­ar sé nokkuð rúm og sjald­an notuð.“

Má ekki tak­marka lög­lega heim­ild

Magnús seg­ir í grein sinni á rík­is­sátta­semj­ara sé ekki heim­ilt að beita miðlun­ar­heim­ild­um sín­um til að tak­marka lög­lega heim­ild stétt­ar­fé­laga til að þrýsta á um kröf­ur sín­ar með boðun vinnu­stöðvun­ar.

Geri hann slíkt fari hann gegn grund­vall­ar­mann­rétt­ind­um frjálsra stétt­ar­fé­laga. Seg­ir hann slíkt aug­ljós­lega eiga við þegar sú staða sé uppi að ekki hafi verið greidd at­kvæði um til­lögu að vinnu­stöðvun og því óvíst hvort að henni komi.

Þannig seg­ir Magnús heim­ild­ir rík­is­sátta­semj­ara hvorki ein­fald­ar né óum­deild­ar. 

Tvö dóms­mál

Efl­ing höfðaði mál gegn rík­is­sátta­semj­ara til þess að freista þess að fá miðlun­ar­til­lögu rík­is­sátta­smjara dæmda ólög­mæta. Þá höfðaði rík­is­sátta­semj­ari inn­setn­ing­ar­mál gegn ASÍ og SGS vegna Efl­ing­ar til þess að kjör­skrá Efl­ing­ar yrði af­hent eða gerð aðgengi­leg.

Vænta má niður­stöðu í inn­setn­ing­ar­máli rík­is­sátta­semj­ara í dag en ein­hverju síðar í máli Efl­ing­ar gegn rík­is­sátta­semj­ara.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert