„Tyrkland hefur óskað eftir aðstoð umheimsins vegna skjálftanna og óskað eftir því við okkur líka. Hjálparbeiðni hefur borist í gegnum viðbragðskerfi Sameinuðu þjóðanna og Atlantshafsbandalagsins,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
„Við munum senda mannúðaraðstoð, fjármagn, í gegnum Sameinuðu þjóðirnar, bæði til Tyrklands og Sýrlands.“
„Þegar kemur að sérfræðingum eru aðrar aðstæður, því miður, í Tyrklandi annars vegar og Sýrlandi hins vegar,“ segir hún.
„Við erum að skoða það að senda sérfræðinga í aðgerðarstjórnun í rústabjörgun. Þessar hjálparbeiðnir sem bárust strax í morgun höfum við þegar mætt að hluta til með nágrannaríkjunum. En við erum að skoða þetta og viljum leita leiða til að koma til aðstoðar.“