Urður Egilsdóttir
Jarðskjálftarnir sem gengu yfir Tyrkland og Sýrland í morgun sjást vel á mælum Veðurstofu Íslands.
„Svona stórir skjálftar koma fram um allan heim,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofunni, sem svaraði spurningum blaðamanns í fjarveru náttúruvársérfræðings.
Stærsti skjálftinn mældist 7,8 að stærð og varð klukkan 17 mínútur yfir fjögur í morgun. Fjöldi eftirskjálfta hafa fylgt í kjölfarið.
Tim Larsen, jarðskjálftafræðingur á jarðfræðistofnun Danmerkur, sagði við AFP-fréttaveituna að skjálftarnir hafi einnig sést vel á mælum á Grænlandi.
Stóri skjálftinn sást á mælum í Borgundarhólmi rúmum fimm mínútum eftir að skjálftinn varð í Tyrklandi. Það tók hann átta mínútur að sjást á mælum á Grænlandi.
Óli Þór nefnir að um tvær bylgjur fylgi jarðskjálftum. Sú fyrri týnist í möttli jarðar en sú sem fer eftir yfirborði jarðar finnist frekar.
„Yfirleitt þegar að það eru svona stórir skjálftar þá sýna allar stöðvar hér á landi útslag. Þá veit maður að þetta er einhversstaðar langt í burtu,“ segir hann.