Samtök atvinnulífsins hafa sent Eflingu áskorun um frestun boðaðar vinnustöðvunar. Þar er einnig fyrirvari gerður um mögulegar bótakröfur, komi til verkfalla.
Ótímabundin vinnustöðvun á sjö hótelum Íslandshótela hefst á morgun.
Í bréfi frá SA til Eflingar segir að í dómi Félagsdóms frá því í morgun hafi ekki verið fallist á kröfur SA meðal annars með vísan til þess að ríkissáttasemjari leiti nú lögbundinna leiða til að tryggja að atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu hans geti farið fram.
Um þann þátt segir í dómi héraðsdóms:
„Stefndi hefur ekki ljáð atbeina sinn til að miðlunartillaga ríkissáttasemjara fái þann framgang sem lög mæla fyrir um. Ágreiningur er um skyldu stefnda í því efni og verður ekki betur séð en að ríkissáttasemjari hafi leitað þeirra leiða sem lög bjóða til að tryggja að atkvæðagreiðsla um tillöguna geti farið fram, meðal annars með því að óska heimildar dómstóla til innsetningar í skrá yfir félagsmenn stefnda. Hvorki í lögum nr. 80/1938 né í öðrum lögum er aftur á móti að finna heimild fyrir dómstóla eða aðra til að bregðast við vanrækslu stéttarfélags í þessu efni.“
Fyrr í dag úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur að Eflingu sé skylt að afhenda kjörskrá eða gera hana aðgengilega svo atkvæðagreiðsla geti farið fram. Kröfu Eflingar um að frestun réttaráhrifa úrskurðarins var hafnað og ber því Eflingu þegar að láta af ólögmætum aðgerðum og afhenda umbeðna kjörskrá.
„Þrátt fyrir afdráttarlausa niðurstöðu héraðsdóms hefur formaður Eflingar lýst því yfir í fjölmiðlum að kjörskrá verði ekki afhent og að verkföll muni eftir sem áður koma til framkvæmda á morgun, þriðjudag.
Ætlan Eflingar virðist sú ein að valda aðildarfyrirtækjum SA tjóni, án þess að það sé liður í yfirstandandi kjaraviðræðum eða vinnudeilu, enda bíður miðlunartillaga sáttasemjara atkvæðagreiðslu. Fyrst ef miðlunartillagan verður felld skapast skilyrði fyrir verkföllum sem þrýstingi á viðsemjanda,“ segir í áskoruninni frá SA.
Samtök atvinnulífsins harma og mótmæla afstöðu Eflingar og skora á félagið af fresta boðaðri
vinnustöðvun þar til niðurstaða atkvæðagreiðslu liggur fyrir. SA áskilja aðildarfyrirtækjum samtakanna bótarétt vegna alls tjóns sem af ólögmætum aðgerðum Eflingar kann að hljótast.