UNICEF á Íslandi hefur hafið neyðarsöfnun fyrir Sýrland sökum jarðskjálftanna sem urðu í Sýrlandi og Tyrklandi í dag. Hægt er að styrkja UNICEF á Íslandi um 1.900 kr með því að senda SMS-ið „STOPP“ á númerið 1900.
Nú hafa verið staðfest 1.200 dauðsföll eftir jarðskjálftann sem átti sín upptök við Gaziantep í morgun en þangað fer fjöldi flóttafólks frá Sýrlandi við erfiðar aðstæður. Aðstæður í Sýrlandi fyrir hamfarirnar voru þegar erfiðar og neyð barna mikil eftir tæp tólf ár af stríðsátökum, að því er segir í tilkynningu frá UNICEF.
6,9 milljónir manna og þar af 3 milljónir barna hafa þurft að flýja heimili sín á umliðnum árum. UNICEF hefur verið á vettvangi í landinu frá árinu 1970 til að tryggja velferð og réttindi sýrlenskra barna og hafa liðsmenn samtakanna unnið hörðum höndum að því að tryggja börnum í landinu skjól, menntun, næringu og heilbrigðisþjónustu. Einnig hefur UNICEF á Íslandi staðið fyrir neyðarsöfnun fyrir sýrlensk börn svo árum skiptir, segir enn fremur.
Stjórnvöld í Tyrklandi hafa ekki óskað eftir alþjóðlegri mannúðaraðstoð vegna ástandsins en undirbúningur UNICEF og annarra stofnanna Sameinuðu þjóðanna er þó hafinn ef ske kynni að óskað verði eftir aðstoð.
Til að leggja neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi vegna Sýrlands lið er hægt að:
Senda SMS-ið „STOPP“ í númerið 1900 til að styrkja um 1.900 krónur.
Leggja inn frjáls framlög á reikning 701-26-102040 kennitala: 481203-2950
Frekari styrktarleiðir og upplýsingar má finna á vef UNICEF á Íslandi