Vefur Veðurstofu Íslands hefur að hluta legið niðri núna í morgun og er verið að vinna í að koma honum aftur upp, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.
Engar frekari upplýsingar fengust, aðrar en að flökt hefði verið á vefnum.
Þegar farið er inn á vefinn fæst ekki upp veðurspákortið eða aðrar upplýsingar tengdar veðrinu. Hins vegar virðast aðrir undirvefir, eins og um vatnafar og jarðhræringar, vera í lagi.
Uppfært kl 11:18: Veðurstofan segir á Facebook-síðu sinni að allt bendi til þess að rafmagnstruflanir í morgun hafi haft áhrif á kerfi Veðurstofunnar. Þetta eigi meðal annars við birtingu gagna á vefnum. Tekið er fram að Veðurstofan geti veitt flugveðurþjónustu og þjónustað viðbragðsaðila. Eins eru jarðskjálftagögn að berast í hús. Þá er unnið að endurræsingum á kerfum.