Flugfélagið Play flutti 61.798 farþega í janúar sem er fimmfalt á við farþegafjölda á sama tíma í fyrra. Sætanýting var 76,8%.
„Þessar tölur eru mjög ásættanlegar fyrir janúarmánuð í fluggeiranum og ótvíræður vitnisburður um skilvirkt leiðakerfi og góðan árangur í sölu- og markaðsmálum,“ segir í tilkynningu.
Flugferðir til Tenerife nutu sérstaklega mikilla vinsælda í mánuðinum með meira en 90% sætanýtingu. Sætanýting til Parísar var álíka góð.
31% af farþegum Play í janúar ferðuðust frá Íslandi, 37% til Íslands og 32% voru tengifarþegar. Stundvísi Play í janúar var 84,3% „sem er mjög góður árangur í ljósi krefjandi veðuraðstæðna á Íslandi í mánuðinum“.
„Farþegatölurnar í janúar voru góðar og nýtingin vel ásættanleg þrátt fyrir að eftirspurn sé almennt með lægsta móti í janúar. Við nýttum sveigjanleika leiðakerfisins og aðlöguðum tíðni flugleggja til að lágmarka kostnað á þessum lágannatíma í flugrekstri. Bókunarstaðan í janúar var feiknasterk sem er til marks um gott ár fram undan. Við verðum með næstum því 77% meira framboð í sumar miðað við síðasta sumar og fáum fjórar nýjar flugvélar. Þá bjóðum við 200 nýja starfsmenn velkomna um borð en það er sannur heiður að fá að fylgjast með PLAY teyminu stækka og styrkjast,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri í tilkynningunni.
Uppfært: Í upphaflegri tilkynningu frá Play kom fram að tölurnar væru fyrir desember, en hið rétta er að þetta eru tölur frá janúar. Fréttin hefur verið uppfærð miðað við það.