Aðalsteinn Leifsson Ríkissáttasemjari hefur lagt fram aðfararbeiðni hjá sýslumanni til þess að fá aðgang að kjörskrá Eflingarfólks vegna boðaðra verkfalla hjá stéttarfélaginu. Þetta staðfesti Aðalsteinn við mbl.is. Vísir sagði fyrst frá málinu.
Er aðfararbeiðnin gerð í kjölfar dóms Héraðsdóms sem skikkaði Eflingu til þess að skila gögnunum.
Efling hefur kært niðurstöðuna til Landsréttar.
Aðalsteinn segir að hann viti ekki hversu langan tíma taki að fá aðfararbeiðnina unna hjá Sýslumanni.
Verkföll hjá Eflingarfólki hófust á Íslandshótelum í dag og fyrirliggjandi er atkvæðagreiðsla um verkföll bílstjóra og hjá starfsfólki Edition og Bejayja hótelum.
Að sögn Aðalsteins er fyrirhugaður fundur í fyrramálið um fyrirkomulag atkvæðagreiðslu um verkfall. Til stóð að fundurinn færi fram í dag en eins og fram kom varð ekkert úr fundinum þar sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar sagðist ekki hafa fengið formlegt fundarboð.
„Það var boðað til fundar í tölvupósti eins og venja er. En við látum það liggja á milli hluta. Nú hefur verið boðað til annars fundar á morgun og ég reikna með því að sá fundur muni eiga sér stað,“ segir Aðalsteinn.
Sagt var frá því í Heimildinni greiningadeild Ríkislögreglustjóra hafi tjáð Aðalsteini að ógn stafaði að honum í tengslum við kjaradeiluna. Aðalsteinn vildi lítið gera úr því en sagði að lögregla hafi haft samband við sig og tjáð honum um málið. „Ég held að það sé eðlilegt þegar hörð umræða er um fólk,“ segir Aðalsteinn.