Þóra Arnórsdóttir, fyrrverandi ritstjóri Kveiks, hefur verið ráðin forstöðumaður Samskipta og upplýsingamiðlunar hjá Landsvirkjun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu, en í gær var greint frá því að hún myndi láta af störfum hjá Rúv.
Þóra hefur starfað við frétta- og dagskrárgerð í um aldarfjórðung. Hún hefur unnið bæði í útvarpi og sjónvarpi, hjá Stöð 2 og RÚV, síðustu ár sem ritstjóri fréttaskýringaþáttarins Kveiks.
Þóra var einnig stundakennari við Háskóla Íslands um árabil þar sem hún kenndi alþjóðastjórnmál. Þóra er með B.A. gráðu í heimspeki frá HÍ og Háskólanum í Genúa á Ítalíu og M.A. gráðu í alþjóðastjórnmálum og þróunarhagfræði frá Johns Hopkins SAIS, Bologna og Washington DC.