Icepharma hefur innkallað Muna Hampolíu, en ástæðan fyrir innkölluninni er sú að magn THC (tetrahýdrókannabínóli) í vörunni mældist yfir hámarksgildi. THC er meginvímugjafi í marijúana og matvæli sem innihalda of mikið efninu geta verið heilsuspillandi. Innköllunin er í samstarfi við heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur.
Muna er íslenskt vörumerki sem sér um framleiðslu á ýmsum matvörum, en hampolía er ýmist notuð í matargerð og sem húð- og háráburður.
Á vef Icepharma er hampolíunni lýst með svo: „Lífræn kaldpressuð hampolía. Góð til inntöku, í þeytinginn, grautinn og sem áburður á húð,“ og er varan seld í flestum stærri matvöruverslunum.
Davíð Berg Ragnarsson, vörumerkjastjóri hjá Icepharma, segir í samtali við mbl.is að innköllunin eigi aðeins við um eina lotu af olíunni.