Framhald aðalmeðferðar í stóra kókaínmálinu, sem átti að fara fram á morgun, hefur verið frestað. Þetta staðfestir Unnsteinn Örn Elvarsson, lögmaður Páls Jónssonar timburinnflytjanda, sem er einn af sakborningunum í málinu.
Fréttablaðið greinir fyrst frá en þar er haft eftir Önnu Barböru Andradóttur héraðssaksóknara að ástæðan fyrir töfunum sé að erfiðlega hafi gengið að fá vitni frá Hollandi.
Páll hefur nú verið í gæsluvarðhaldi í um það bil sjö mánuði á grundvelli almannahagsmuna, að sögn Unnsteins, sem telur að frestun aðalmeðferðar kalli á enn lengra varðhald yfir skjólstæðingnum sínum. Leggst það ekki vel í hann.