„Það er erfið færð. Þæfingur víða í úthverfum borgarinnar og við erum búin að fá þó nokkur umferðaróhöpp,“ segir Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
„Í úthverfum vorum við byrjaðir að fá útköll áðan um að bílar væru að festa sig í húsagötum. Snjórinn er léttur og fýkur í skafla. Það er skafrenningur.“
Dimm él gera fólki erfitt fyrir auk þess sem umferð er hæg á höfuðborgarsvæðinu vegna þessa. Fjögurra bíla árekstur varð á Sæbrautinni í dag.
„Þetta snýst um að fara varlega, það er númer eitt, tvö og þrjú, að haga akstri eftir aðstæðum. Það eru þessi dimmu él sem verða, þá hægist á öllu. Síðan er frost úti og undir öllu snjófarginu er hálka. Og menn verða að taka mið af því. Eða bara að panta sér ferð til Tenerife,“ segir Árni í gríni.
Færð er sömuleiðis erfið á landsbyggðinni og hefur Hellisheiðinni og Þrengslum verið lokað vegna þessa og fólk hvatt til að aka varlega.