Píratar segja meirihluta Alþingis vera í stríði gegn mannréttindum og hafa lokið umræðu um útlendingafrumvarp Jón Gunnarssonar dómsmálaráðherra. Þtta kemur fram í tilkynningu frá flokknum.
Eins og áður hefur verið greint frá hefur umdeilt útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra verið mikið rætt á þingi síðan það var lagt fyrir á síðasta ári og hafa þingmenn Pírata rætt málið mest allra. Píratar hafa meðal annars verið sakaðir um málþóf og um að tefja málið.
Í tilkynningunni ítreka Píratar að frumvarpið feli í sér miklar skerðingar á mannréttindum fólks á flótta.
„Þrátt fyrir að frumvarpið hafi hlotið alvarlega gagnrýni frá umsagnaraðilum hefur stjórnarmeirihlutinn á þingi ákveðið að hafa málið áfram í forgangi á kostnað annarra mála, í stað þess að hlusta á gagnrýnina og gera umbætur á frumvarpinu, eða draga það til baka, en dagskrárvaldið er í höndum meirihlutans,“ segir í tilkynningunni.
Píratar hafa nú ákveðið að ljúka umræðu sinni um málið en hvetja ríkisstjórnina til að standa vörð um stjórnarskrána.
„Ákvæði frumvarpsins hafa hlotið alvarlega gagnrýni umsagnaraðila fyrir að kveða á um að svipta fólki á flótta heilbrigðisþjónustu, húsnæði og annarri aðstoð undir vissum kringumstæðum, að skerða rétt til fjölskyldusameiningar og þannig aðskilja fjölskyldur á flótta.“
Að lokum gagnrýna Píratar að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hafi ekki tekið þátt í umræðu um málið þrátt fyrir síendurteknar tilraunir Pírata til að kalla eftir viðveru þeirra.
Þá harma þeir að allar tillögur um úrbætur á frumvarpinu hafi ekki verið teknar til greina af stjórnarmeirihlutanum.