Sleppir aðför og bíður eftir úrskurði Landsréttar

Ríkissáttasemjari hefur ákveðið að falla frá aðfararbeiðni til sýslumanns, til þess að fá kjörskrá Eflingar afhenta.

Þess í stað hefur hann og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, ákveðið að bíða úrskurðar Landsréttar um lögmæti miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Úrskurði hann miðlunartillöguna lögmæta muni Efling afhenda kjörskrána.

Þetta staðfestir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is. Hann átti fund ásamt lögmanni sínum og lögmanni Eflingar, þar sem komist var að þessari niðurstöðu.

„Þung skref að fara þá leið“

„Markmið mitt með því að leggja fram þessa miðlunartillögu var að vinna að sátt með sem skilvirkustum hætti. Þess vegna hygg ég mjög skynsamlegt að við vinnum saman til þess að það komi niðurstaða frá Landsrétti sem allra fyrst,“ sagði Aðalsteinn.

Hluti af samtalinu hafi falið í sér að Aðalsteinn myndi ekki sækja kjörskrána með aðfarargerð: „Það eru þung skref að fara þá leið. Það er mikið líklegra, hygg ég, til árangurs að við náum samstarfi.“ Staðfesti Landsréttur úrskurð héraðsdóms muni Efling leggja fram kjörskrána.

Má þá ekki segja að Efling sé að hagnast á því að halda úti verkfalli á meðan hún heldur úti ólöglegu ástandi?

„Eins og ég sagði, þá er markmiðið alltaf að ná að lenda hlutum eins fljótt og hægt er og í eins mikilli sátt og hægt er. Þessi leið, ef hún er fær, [gerir okkur kleift að] ná þeim markmiðum sem best.“

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttarsemjari hefur hætt við aðfararbeiðni.
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttarsemjari hefur hætt við aðfararbeiðni. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert