Strætó tekinn af dagskrá

Borgarfulltrúar vilja aukafund um Strætó.
Borgarfulltrúar vilja aukafund um Strætó. mbl.is/Árni Sæberg

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands krefjast þess að haldinn verði aukafundur í borgarstjórn Reykjavíkur í vikunni, til þess að ræða málefni Strætó bs. Var þetta lagt til á borgarstjórnarfundi í gær.

Sjálfstæðisflokkurinn vill ræða um greiðslukerfi Strætó, Klappið, og að óháðu ráðgjafarfyrirtæki verði falið að gera úttekt á kerfinu og koma með tillögur til úrbóta. Sósíalistaflokkurinn vill hins vegar að Reykjavíkurborg vinni gegn frekari útvistun hjá Strætó.

Tekið af dagskrá eftir sex klukkustunda fund

Bæði málin voru tekin af dagskrá borgarstjórnarfundar í gær, þar sem ekki gafst tími til að ræða þau. Eftir sex klukkustunda fundahöld á borgarstjórnarfundi í gær höfðu einungis þrjú mál verið afgreidd og lagði forseti þá til að taka fjögur mál af dagskrá í þeim tilgangi að ljúka fundinum fyrir kvöldmatartíma. 

Því leggja flokkarnir til að aukafundur verði haldinn um málefnin sem bæði snúa að Strætó.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðust gegn tillögunni og bókuðu:

„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja mikilvægt að umræður um Klapp-greiðslukerfi Strætó fari fram eins og dagskrá fundarins kveður á um. Um er að ræða mál, sem snýst um mikilvæga þjónustu við Reykvíkinga og varðar mikla fjárhagslega hagsmuni. Óviðunandi er að meirihlutinn dragi umræður í borgarstjórn vísvitandi á langinn og neiti að taka dagskrármál til umræðu í því skyni að losna við umræður um óþægileg mál, eins og hér er að gerast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert