Tengsl eru á milli langvinnra verkja á fullorðinsárum og sálrænna áfalla í æsku samkvæmt rannsókn þriggja sérfræðinga á Akureyri sem birt hefur verið í Læknablaðinu. Tengsl af þessu tagi hafa lítið sem ekkert verið rannsökuð hér á landi fram að þessu.
„Við höfum vitað um þessi tengsl lengi,“ segir Þorbjörg Jónsdóttir dósent, einn sérfræðinganna, í samtali við Morgunblaðið, „en það hefur ekki verið sýnt fram á þau fyrr með rannsókn.“ Hún telur líklegt að niðurstöðurnar verði til þess að heilbrigðisstarfsfólk beini í auknum mæli ekki aðeins sjónum að verkjum fólks, sem til þess leitar, heldur að sögu viðkomandi í heild.
Niðurstöðurnar sýna að langvinnir verkir á fullorðinsárum og það að verða fyrir ofbeldi á fullorðinsárum getur tengst sálrænum áföllum í æsku. Einstaklingar sem verða fyrir sálrænum áföllum í æsku og ofbeldi á fullorðinsárum eru líklegri til að glíma við langvinna verki. Þorbjörg segir mikilvægt að gefa reynslu af áföllum og/eða ofbeldi fyrr á ævinni gaum þegar fólk leitar til heilbrigðiskerfisins vegna langvinnra verkja.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.