Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, er ein í framboði til formanns og Daði Már Kristófersson, varaformaður Viðreisnar, er einn í framboði til varaformanns. Frestur til þess að bjóða til fram til formanns, í stjórn og í málefnaráð Viðreisnar rann út á hádegi í dag.
Landsþing Viðreisnar verður haldið á laugardaginn en frestur til þess að bjóða sig fram til varaformanns rennur út á þinginu sjálfu, að því er fram kemur í tilkynningu frá Viðreisn.
Fimm meðstjórnendur verða kjörnir og tveir til vara en sex framboð bárust til stjórnar. Þau sem bjóða sig fram í stjórn Viðreisnar eru: Elín Anna Gísladóttir, Jón Steindór Valdimarsson, Kamma Thordarson, Natan Kolbeinsson, Oddný Arnarsdóttir og Thomas Möller.
Átta framboð bárust í málefnaráð. Þau sem bjóða sig fram í málefnaráð eru: Anna Kristín Jensdóttir, Eyþór Eðvaldsson, Friðrik Sigurðsson, Hildur Betty Kristjánsdóttir, Lilja G. Karlsdóttir, Máni Þór Magnason, Oddný Arnarsdóttir og Pawel Bartoszek.
Nokkrar breytingartillögur liggja fyrir landsþinginu. Vegna málefnaráðs eru þær tvær: Samkvæmt annarri tillögunni skal kjósa sex fulltrúa í málefnaráð og tvo til vara en samkvæmt hinni tillögunni skal kjósa fjóra formenn málefnanefnda sem skipa málefnaráð, auk þriggja einstaklinga kjörinna á landsþingi. Nefndirnar eru: Mannréttinda-, velferðar- og menntanefnd, efnahags-, atvinnu- og viðskiptanefnd, umhverfis- og samgöngunefnd, utanríkis- og Evrópunefnd.
Framboð til varaformanns rennur út einni klukkustund eftir að formaður hefur verið kjörinn en Daði Már Kristófersson, núverandi varaformaður Viðreisnar, hefur þegar gefið það út að hann muni óska eftir endurkjöri. Gangi breytingartillögur eftir á þinginu verður framboðsfrestur til ritara klukkustund áður en kosning hefst. Einnig munu aðrir framboðsfrestir til embætta framlengjast og renna út klukkustund áður en kosning hefst.
Fyrir fundinum liggur sömuleiðis breytingartillaga um að fækka meðstjórnendum um einn og kjósa sérstaklega ritara.