Þrjár flugvélar Play sem áttu að lenda á Keflavíkurflugvelli þurftu að lenda á varaflugvöllum í dag vegna veðurs, tvær á Egilsstöðum og ein á Akureyri. Þetta staðfestir Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóri Play.
„Nú er verið að setja eldsneyti á vélarnar og beðið eftir færi til að lenda í Keflavík,“ segir í skriflegu svari frá Nadine.
Hvasst er í Keflavík þessa stundina og hefur að minnsta kosti fimm flugferðum verið aflýst í kvöld og nótt, hjá Icelandair, Play og Vueling.
Um er að ræða fjórar vélar sem koma frá Barcelona, Baltimore í Washingtone, Boston og Las Palmas annars vegar og hins vegar eina vél sem átti að leggja af stað til Barcelona í fyrramálið, að því er fram kemur á vef Isavia.