Afbrigðilega stórar vakir í Öskjuvatni

Horft yfir Öskju og nágrenni úr lofti í dag. Vökin …
Horft yfir Öskju og nágrenni úr lofti í dag. Vökin sést sem dökkur blettur á hrímhvítu vetrarríkinu.

Nýjar gervitunglamyndir sýna afbrigðilega stórar vakir í Öskjuvatni, sem annars er ísilagt.

Frá þessu greinir rannsóknarstofa Háskóla Íslands í eldfjallafræðum og náttúruvá.

Töluverður órói hefur verið í eldfjallinu frá því árið 2012. Það ár bræddi fjallið af sér ísinn á vatninu um miðjan vetur.

„Mælingar það ár sýndu mikinn jarðhita á botni vatnsins er skýrt gat bráðnun íssins. Mælingar eftir skriðuföllin 2014 sýndu aftur á móti að mikið hafði dregið úr jarðhitanum frá mælingum 2012. Ísinn á Öskjuvatni er undir eðlilegum kringumstæðum viðvarandi fram í lok júní, byrjun júlí,“ segir í tilkynningu frá stofunni.

Þessi skýringarmynd af Öskju fylgir tilkynningunni.
Þessi skýringarmynd af Öskju fylgir tilkynningunni.

Vert að vera vel vakandi

Birtar eru myndir til samanburðar frá síðustu átta árum og af þeim má sjá að vakirnar eru mun stærri en venjulega og geti einungis skýrst af auknum jarðhita undir niðri.

Bent er á að þetta rími við önnur merki sem mælst hafi við fjallið, á borð við landris og skjálfta.

„Það er því vert að vera vel vakandi hvað Öskju varðar þessa dagana.“

Eins og greint var frá á síðasta ári hefur land tekið að rísa við eldstöðina, en það hefur ekki gerst í fleiri áratugi.

Ris­hraðinn í Öskju þykir óvenju­mik­ill, ef miðað er við sam­bæri­leg eld­fjöll í heim­in­um.

Fyrirvarinn gæti verið stuttur

Ef til eld­goss kem­ur er líklegast að það verði sprungugos í nærum­hverfi öskj­unn­ar.

Mæl­ing­ar á eld­fjöll­um með þroskuðum öskj­um, eins og í til­felli Öskju, hafa sýnt að þar geti orðið mikl­ar jarðskorpu­hreyf­ing­ar án þess að til eld­goss komi.

Ekki er þó úti­lokað að í til­felli Öskju yrði fyr­ir­var­i eldgoss stutt­ur, jafn­vel tal­inn í klukku­stund­um.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert