Átta ára dómur fyrir að skjóta mann í bílastæðahúsi

Ingólfur Kjartansson við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í október.
Ingólfur Kjartansson við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í október. mbl.is/Kristinn Magnússon

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í nóvember Ingólf Kjartansson í átta ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps og vopnalagabrot með því að hafa aðfararnótt sunnudagsins 13. febrúar 2022 skotið mann í bílastæðahúsi í Reykjavík. 

Að mati dómsins var brotavilji hans einbeittur við verknaðinn og var það lagt til grundvallar að það hafi verið beinn ásetningur Ingólfs að bana manninum.

Hann var einnig dæmdur til að greiða manninum 3,5 milljónir kr. í miskabætur, auk þess að greiða réttargæsluþóknun, útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins og málsvarnalaun sem samtals nemur rúmum fimm milljónum kr. 

Sem fyrr segir, þá féll dómurinn í byrjun nóvember en mbl.is hefur dóminn undir höndum sem hefur ekki verið birtur opinberlega á vef héraðsdóms. 

Í umfjöllun mbl.is frá því í október, þá kom fram að Ingólfur hefði notað þrívídd­ar­prentaða byssu með hljóðdeyfi þegar hann réðist til atlögu. 

Gerðist aðfararnótt 13. febrúar 2022

Þar segir, að héraðssaksóknari hafi ákært Ingólf í október í fyrra fyrir tilraun til manndráps og vopnalagabrot, með því að hafa skömmu eftir miðnætti aðfaranótt sunnudagsins 13. febrúar 2022, í bílastæðahúsi í Reykjavík, skotið mann með skotvopni, framanvert á brjóstkassa hægra megin rétt ofan við geirvörtu og fór skotið í gegnum hægra lunga og út á aftanverðum brjóstkassa hægra megin, eins og segir í ákæru. Maðurinn hlaut af opið sár á brjóstkassa, áverkablæðingu í brjósthol, rifbrot og áverkaloftbrjóst.

Frá aðgerðum sérsveitar ríkislögreglustjóra umrædda nótt.
Frá aðgerðum sérsveitar ríkislögreglustjóra umrædda nótt.

Auk þess skaut Ingólfur að minnsta kosti þremur skotum til viðbótar úr skotvopninu umrætt sinn sem hæfðu ekki manninn, en Ingólfur var ekki með skotvopnaleyfi og undir áhrifum vímugjafa. 

Ingólfur játaði sök við meðferð málsins fyrir héraðsdómi. 

Metinn sakhæfur

Fram kemur að hann hafi árið 2021 hlotið tveggja ára fangelsisdóm fyrir brot gegn barnaverndarlögum, líkamsárás, þjófnað, gripdeild, rán og ránstilraun, vopnalaga- og fíkniefnalagabrot. Hann hlaut reynslulausn á eftirstöðvum refsingar sem honum hefur nú verið gert að afplána.

Þá segir, að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2022 hafi honum verið gert að gangast undir geðrannsókn.

Geðlæknir sem vann geðrannsóknina skilaði rannsókn sinni með skýrslu 7. apríl 2022. Í niðurstöðukafla segir m.a. svo: „Að mati undirritaðs er ekkert læknisfræðilegt sem kemur í veg fyrir það að refsing kynni að bera árangur ef hann reynist sekur um þau mál sem hann er ákærður fyrir.“ Ingólfur var því metinn sakhæfur. 

Í dómi héraðsdóms segir jafnframt, að Ingólfur hafi farið til fundar við manninn beinlínis með það í huga að meiða hann. Hann bar einnig um að hann hefði ákveðið að skjóta hann.

Lífshættulegur áverki

„Ljóst er að að um lífshættulegan áverka var að ræða og án meðferðar er hugsanlegt að áverkar hans hefðu leitt til dauða, þó er einnig mögulegt að hann hefði getað lifað þessa áverka af án meðferðar. Nokkuð góðar líkur eru á bata eftir þennan áverka. A mun þó vera með varanleg ör á brjóstkassa eftir skotsárin sem og eftir brjóstholskerann sem lagður var. Einnig er hugsanlegt að hann verði með varanleg lungnaeinkenni eða verki frá stoðkerfi eftir rifbrotin en hann er enn til eftirlits á vegum lækna Landspítala vegna áverkans,“ segir í dómi héraðsdóms. 

Tekið er fram í dómi héraðsdóms, að tekið sé mið af því að Ingólfur hafi verið ungur að árum er hann framdi brot sín, en hann er fæddur árið 2002, og hann njóti þess við refsiákvörðun að hafa skýlaust játað brot sín. 

Þá gerði dómstóllinn skotvopnið upptækt ásamt hljóðdeyfi og fjórum skothylkjum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert