Ólafur Loftsson sérfræðingur í aðgerðastjórnun hjá Landsbjörg segir að alþjóðlegar sveitir á borð við þá íslensku sem nú er á Tyrklandi séu fengnar því almannavarnakerfi landsins sé á þrotum. Engin þjálfun geti búið mann undir það sem að höndum ber.
„Það er hægt að þjálfa fólk í öllu mögulegu og ómögulegu en það er mjög erfitt að þjálfa fólk í að lenda raunverulega í þessum aðstæðum. Menn geta reynt að lýsa aðstæðum. Til eru myndir sem koma almenningi aldrei fyrir sjónir sem hafa þann tilgang að sýna fólki hvað gæti beðið þeirra. En það er annað að upplifa þetta,“ segir Ólafur.
Vísar hann þar til þess sem bíður íslensku hjálparsveitarinnar sem nú hefur hafið störf í Tyrklandi.
„Þó auðvitað mesti krafturinn fari í það að bjarga þeim sem gætu verið á lífi þá er einnig stór hópur sem einfaldlega er á götunni. Bæði hafa fjölmargar byggingar hrunið en einnig eru margir hræddir að fara inn í byggingar af ótta við það að annar skjálfti gæti leitt til þess að aðrar byggingar hrynja,“ segir Ólafur.
Hann bendir á að þegar frá líði taki við ákveðið vonleysi. Auk heimilisleysis séu líkur á því að vatn og rafmagn séu af skornum skammti. Væntanlega skorti tjöld, föt, mat og sjúkragögn.
Ólafur var sjálfur nýlega á hamfarasvæði í Pakistan þar sem víðtæk flóð ollu miklu tjóni.
Þessi níu manna hópur sem er frá Landsbjörg er að sögn Ólafs ekki á vettvangi við leit heldur að mestu í aðgerðastjórn. Í raun til aðstoðar við almannavarnakerfið í Tyrklandi.
„Almennt er hjálp að utan fengin til þess að hjálpa við taka á móti hópum og að kortleggja hvar þörfin er mest og hvert sé best að senda þá. Stjórnvöld á staðnum eru alltaf við stjórnvölinn en þau geta beðið utanaðkomandi hópa um að taka að sér verkstjórn varðandi einhver ákveðin svæði eða einingar sem búið er að skipta upp til að skipuleggja leit.“