Forsvarsmenn Eflingar og ríkissáttasemjara skrifuðu undir samkomulag í dag, þess efnis að aðfararbeiðni ríkissáttasemjara til að sækja kjörskrá Eflingar verður frestað fram að niðurstöðu Landsréttar um úrskurðinn sem kveður á um heimildina til aðfarar.
Þetta staðfestir Sigríður Kristinsdóttir, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu, við mbl.is.
Samkomulagið var fært í gerðarbók sýslumanns og ætla báðir málsaðilar að skila inn greinargerðum vegna kærða úrskurðarins í dag.
Búist er við skjótri málsmeðferð og telja þeir sem vel þekkja til að niðurstaða gæti legið fyrir snemma í næstu viku.
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari segir í samtali við mbl.is að í samkomulaginu skuldbindi báðir aðilar sig til þess að una úrskurði Landsréttar.
Efling skuldbindur sig til að afhenda eða gera aðgengilegar skrár með nöfnum og kennitölum allra atkvæðabærra félagsmanna um miðlunartillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilum Eflingar og Samtaka atvinnulífsins, falli úrskurður Landsréttar á sama veg og Héraðsdóms Reykjavíkur á mánudaginn var.
Eflingu er veittur skammur fyrirvari til að afhenda kjörskrána. Þá er aðfarargerð að beiðni ríkissáttasemjara frestað.