„Hér eru allar hendur uppi á dekki“

Hjálparsveitarfólkið í Tyrklandi.
Hjálparsveitarfólkið í Tyrklandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hér eru allar hendur uppi á dekki til að takast á við málin. Ástandið er náttúrlega ömurlegt en í aðgerðarstjórn er fólk bara að vinna sína vinnu,“ segir Sólveig Þorvaldsdóttir hópstjóri Landsbjargar og einn níumenninga sem sendur var á hamfarasvæði í Tyrklandi til aðstoðar.

Alþjóðlega hópnum sem Íslenska teymið er hluti af hefur lánast að finna tugi einstaklinga á lífi í rústum í Hatay héraði í austurhluta Tyrklands. „Við erum samt erum samt bara á „need to know basis," og fáum ekkert upplýsingar um það hversu margir finnast á lífi fyrr en undir lok dags,“ segir Sólveig.

Sólveig Þorvaldsdóttir.
Sólveig Þorvaldsdóttir.

Verkfræðingar í vettvangsferð

Verkfræðingar úr hópnum eru nú í vettvangsferð ásamt aðgerðastjóra alþjóðlega teymisins sem stýrt er af Hollendingum. Jafnframt er hluti hópsins í aðgerðastjórnstöð í Hatay.

„Þá er læknir okkar í samstarfi við aðra lækna, eins erum við að huga að hugbúnaði sem heldur utan um aðgerðirnar og svo erum við að efla ýmsa samhæfingaraðgerðir," segir Sólveig.

Björgunaraðgerðir í Hatay.
Björgunaraðgerðir í Hatay. AFP

Verkfræðingar hópsins eru nýttir í alls kyns verkefni og ekki hægt að vita fyrirfram í hvers kyns verkefnum menn lenda í. „Verkfræðingarnir gætu farið í rústabjörgun en eru núna í gagnasöfnun og öðru tilfallandi,“ segir Sólveig.

Fólk að kveikja elda til að ylja sér

Hún segir að aðgerðastjórnbúðirnar séu aðeins fyrir utan þéttbýli en í gær fóru þau inn á svæði þar sem mikil eyðilegging blasti við. „Borgin er nánast rafmagnslaus og þar mátti sjá fólk vera að kveikja elda og ylja sér. Það er mjög kalt á nóttunni en sem betur fer gott veður á daginn.“ segir Sólveig.

Ragna Sif Árnadóttir, læknir hópsins, við fyrstuhjálpar aðstoð á skjálftasvæðunum.
Ragna Sif Árnadóttir, læknir hópsins, við fyrstuhjálpar aðstoð á skjálftasvæðunum.

Hún segir að mesti vandinn snúi að því að fá ökutæki til þess að komast á milli staða. Samhliða eru samgöngur erfiðar, sprungur í vegum og aðrar skemmdir sem hamla för. „Við vorum t.a.m. í bíl í fleiri klukkustundir í gær. Sú ferð átti að taka 20 mínútur ef allt væri eðlilegt,“ segir Sólveig.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert