Lá fyrir áður en blekið þornaði

Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna ohf.
Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna ohf. Ljósmynd/Aðsend

Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri hjá Betri samgöngum, segir það ekki rétt að framkvæmdaáætlun Samgöngusáttmálans sé komin 50 milljarða fram úr áætlun, eins og Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, hélt fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

„Það eru stofnvegirnir, það eru vegirnir fyrir bílana, sem eru að fara fram úr áætlunum. Sú tala er sautján milljarðar, ekki fimmtíu,“ segir Davíð.

Hann bendir þó á að verðlag hafi hækkað frá því að fyrstu áætlanir voru gerðar. 

„Ef við erum að bera saman áætlanir frá árinu 2019 miðað við daginn í dag, þá verður auðvitað að uppfæra verðlagið. Þetta eru ekki samanburðarhæfar tölur.“

Upphaflegar tölur gerðu ráð fyrir ódýrara mannvirki

Í greininni í Morgunblaðinu í dag segir Ásdís að stokkurinn við Sæbraut sé ein af framkvæmdunum sem nú sé metin á ríflega fimmtán milljarða umfram upphaflega áætlun. Því sé brýnt að kanna hvort slíkar vanáætlanir eigi við um önnur verkefni sáttmálans. 

Davíð segir að í áætlun Samgöngusáttmálans hafi verið gert ráð fyrir mislægum gatnamótum við Sæbraut, ekki stokk, sem sé mun ódýrara mannvirki. Upphæðirnar taki mið af því.

„Áður en blekið á Samgöngusáttmálanum þornaði hefur það legið fyrir að Sæbrautarstokkur yrði miklu dýrari. Ef það er vilji til þess að endurskoða hann þá verður það gert. En þá bendi ég á það – hvað ætla menn að gera við Sundabraut?“ spyr Davíð.

„Hvernig á að tengja Sundabraut inn í Vogahverfið? Ég sé ekki fyrir mér hvernig er hægt að fara að því án þess að það sé þarna kominn stokkur á Sæbraut.“

Í höndum eigenda að endurmetaverkefni

Davíð segir að honum þyki þó eðlilegt að verkefni Samgöngusáttmálans séu endurmetin af og til enda var hann gerður til fimmtán ára, sama hvort það myndi þá fela í sér að bæta við og stækka verkefni eða minnka þau.

Hann segir það þó í höndum ríkisins og sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins að taka slíkar ákvarðanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert