Uppi varð fótur og fit í gær við Fosshótel í Bríetartúni þar sem fjölmennur hópur Eflingarliða í gulum vestum hafði verið læstur úti af hótelinu.
Þegar mbl.is bar svo að garði voru þrír lögreglubíla hið minnsta á svæðinu.
Spurð hvað gengið hafði á í gær, bar Eflingarfólki og fulltrúum Samtaka atvinnulífsins ekki saman.
Sjá má viðtöl við Sólveigu Önnu og Ragnar Árnason, lögmann SA, hér að neðan sem lýstu hvort sem sínu nefi hvað gekk á, á hótelinu í gær, hér:
Sjá má á myndskeiði sem fylgir hér að Sólveig Anna öskraði á gesti hótelsins sem sátu í móttöku hótelsins.
Uppfært kl. 15:17: Samkvæmt yfirlýsingu frá Íslandshótelum er myndskeiðið tekið í dag og því ekki um atburði gærdagsins að ræða.
Lesa má yfirlýsingu frá Íslandshótelum í heild sinni hér:
Áreitni við gesti og ógnandi hegðun forystu Eflingar við starfsfólk hótelanna hefur mikil áhrif á það samstarf sem Íslandshótel vilja eiga við stéttarfélagið og verkfallsverði þess. Eins og fram hefur komið hefur forystufólk Eflingar viðhaft ógnandi hegðun gagnvart starfsfólki og yfirmönnum Íslandshótela, krafist þess að starfsfólk í öðrum stéttarfélögum leggi niður vinnu sína, áreitt gesti hótelanna og sakað Íslandshótel um verkfallsbrot, án þess að nokkuð slíkt hafi átt sér stað.
Forystumenn Eflingar hafa lýst þeirri skoðun sinni við starfsfólk og gesti með afgerandi hætti að hótelin eigi ekki að vera starfandi vegna verkfalls Eflingar, en slíkt er að sjálfsögðu ekki í samræmi við þá stöðu sem uppi er, þar sem einungis starfsfólk í Eflingu sem vinnur hjá Íslandshótelum er í verkfalli, en starfsfólk annarra stéttarfélaga er við vinnu sína. Faglært matreiðslufólk, þjónar, starfsfólk í gestamóttöku og stjórnendur eru þannig til að mynda ekki í verkfalli og halda áfram sýnum daglegu störfum. Nú í morgun mætti Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, á eitt hótela Íslandshótela og áreitti gesti sem voru við innskráningu.
Verkfallið hefur þegar haft veruleg áhrif á starfsemi Íslandshótela sem hafa þurft að vísa mörgum gestum frá hótelinu og draga verulega úr þjónustu við gesti hótelsins.
Forsvarsmenn Íslandshótela hafa lagt sig fram um að taka á móti verkfallsvörðum Eflingar með gestrisni, virða verkfallsrétt Eflingarfólks og gætt þess í hvívetna að engin verkfallsbrot séu framin. Því miður hafa forystumenn Eflingar ítrekað slegið á útrétta sáttahönd Íslandshótela varðandi eftirliti með slíku.
Samtök atvinnulífsins hafa ritað forystu Eflingar bréf þar sem brugðist var við fullyrðingum Eflingar um verkfallsbrot, sem voru ekki á rökum reist. Ef Efling getur ekki fylgt lögum og reglum og látið af áreiti og ógnandi hegðun við starfsfólk og gesti hótelanna, sjá forsvarsmenn Íslandshótela sér ekki annan kost en að taka fyrir aðgang verkfallsvarða Eflingar að hótelunum.
Fréttin hefur verið uppfærð.