Hluti húsnæðis Menntaskólans við Sund (MS) hefur orðið fyrir rakaskemmdum. Loka þarf einu svæði á þriðju hæð og aðstöðu nemenda á fyrstu hæð og hefja mótvægisaðgerðir og viðgerðir.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.
Í tilkynningunni segir að það sé mat Menntaskólans við Sund og mennta- og barnamálaráðuneytisins að viðgerðir á húsnæði MS þoli ekki bið til að skólastarf geti haldið áfram.
Verkfræðistofan EFLA framkvæmdi rakaskimun og sýnatöku á húsnæðinu. Niðurstöður úttektar EFLU voru kynntar fulltrúum Framkvæmdaskýrslunnar – Ríkiseigna (FSRE), MS og mennta- og barnamálaráðuneytisins í lok janúar.
Í tilkynningunni segir að ástandið sé verst á þriðju hæð í Loftsteini en einnig slæmt á fyrstu hæð austurbyggingar í Þrísteini. Loka þarf þessum tveimur svæðum til lengri tíma eða þar til að viðgerðir hafa farið fram.
Þá fundust raki og mygla einnig á afmörkuðum svæðum annars staðar í húsnæðinu og verður rakaskemmt byggingarefni fjarlægt og endurnýjað með sértækum viðgerðum á meðan á vetrarfríi nemenda stendur í þarnæstu viku.
Niðurstöður úttektarinnar voru kynntar fyrir starfsfólki MS, nemendum og foreldrum þeirra í dag.