Þung staða hefur verið á spítalanum á Selfossi síðastliðna viku þar sem að Covid-19, nóróveirusýking og RS-veiran hafa m.a. verið að berast í sjúklinga. Átta sjúklingar voru í einangrun í byrjun mánaðar og þurfti að setja á tímabundið heimsóknarbann til að takmarka útbreiðslu smita. Þá hafa veikindi meðal starfsmanna einnig sett strik í reikninginn.
„Ástandið er búið að vera ansi slæmt uppi á lyflækningadeildinni á Selfossi. Við erum búin að vera með marga í einangrun,“ segir Díana Óskarsdóttir forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, í samtali við mbl.is.
Hún segir ástandið vera að skána og að starfsfólkið sjái fyrir endann á því en undanfarnir dagar hafi þó reynst áskorun.
„Í byrjun mánaðarins vorum við komin með ansi marga í einangrun. Við erum ágætlega í stakk búin að takast á við þetta en deildin okkar er orðin gömul og það er áskorun með klósettin – við erum ekki með klósett inni á hverju herbergi.“
Að sögn Díönu hafa einnig verið að koma upp veikindi meðal starfsfólks en hún telur þó ómögulegt að segja til um hvort að það hafi smitast inni á sjúkrastofnuninni.
Til að stemma stigu við útbreiðslu smita hafa þónokkrir sjúklingar verið færðir í einangrun, eins og áður kom fram. Þá var heimsóknarbann sett tímabundið á og umgengni milli deilda takmörkuð.
„Síðan erum við með sjúklinga inniliggjandi á bráðamóttökunni. Við höfum reynt að halda þeim þar frekar en að leggja þá inn á lyflækningadeildina,“ segir Díana.
„En við erum að ná utan um þetta og þetta lítur betur út núna.“