Efling ætlar að skila inn greinargerð vegna kæru sinnar á úrskurði héraðsdóms, vegna innsetningarmáls ríkissáttasemjara til þess að fá kjörskrá til atkvæðagreiðslu fyrir miðlunartillögu afhenta, til Landsréttar í dag.
Daníel Isebarn, lögmaður Eflingar, segir að líklegt sé að málið fái skjóta málsmeðferð. Ekki verður um neinn málflutning að ræða.
Úrskurður héraðsdóm sem núna er kærður til Landsréttar var afgerandi og fallist var á öll rök ríkissáttasemjara. Daníel segir dóminn rangan og vísar í greinagerð Eflingar um málið.
Hann nefnir þó að bæði form- og efniskröfur fyrir innsetningarmál séu ekki til staðar, ríkissáttasemjari hafi enga lagaheimild til þess að fá kjörskrá afhenta og að framkvæmd framlagningar miðlunartillögunnar hafi ekki verið lögum samkvæmt.
Hann segir Félagsdóm umfram héraðsdóm hafa skoðað málið í samhengi við stjórnarskrárvarin mannréttindi.
„Það að einhver hafi heimild til að grípa inn í og skerða réttindi þýðir ekki að hann geti notað þá heimild eftir eigin geðþótta. Heimildinni má einungis beita þegar aðstaðan er orðin þannig að fullnægt sé áskilnaði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu til þess að grípa inn í samningsrétt stéttarfélaga og atvinnurekenda. Það á við í algerum undantekningartilvikum sem ekki eru til staðar í þessari deilu,“ segir Daníel.
„Það að beita heimildinni er ekki einkamál ríkissáttasemjara og mat hans á aðstæðum getur verið endurskoðað af dómsstólum og hann getur haft rangt fyrir sér.“