Stakk af eftir árekstur á Miklubraut

Bílar á ferð um MIklubraut. Mynd frá því fyrr í …
Bílar á ferð um MIklubraut. Mynd frá því fyrr í mánuðinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilkynnt var um árekstur á Miklubraut í dag. Minni háttar eignatjón varð en ökumenn greindi á. Lögregla kom á vettvang til þess að ræða við ökumennina en sá sem varð valdur að tjóninu hafði þá stungið af.

Annar ökumaður var stöðvaður í bænum, sem reyndist ekki hafa ökuréttindi. Bíl hans var lagt í stæði og ökumaður látinn fá lyklana.

Slökkvilið kallað út vegna áreksturs

Umferðaróhapp varð í miðbæ Reykjavíkur þar sem báðar bifreiðar reyndust óökufærar. Því þurfti að kalla til slökkviliðið til að hreinsa upp olíu vegna árekstursins. Minni háttar áverkar voru á farþegum og eigendur bifreiðanna sáu um að koma þeim af vettvangi. 

Einnig var tilkynnt um innbrot í miðbæ Reykjavíkur og fór lögregla á staðinn og er málið nú í rannsókn. 

Eitthvað var um að ökumenn væru að tala í símann við aksturinn og stöðvaði lögreglan tvo slíka. Annar þeirra gekkst strax við brotinu, en í ljós kom að hann var ekki með gild ökuréttindi. Annar var tekinn við sömu iðju og gekkst hann ekki við brotinu og var skýrsla rituð um málið.

Mótmæli og óður maður

Lögreglu var einnig tilkynnt um mótmælendur sem voru með læti og neituðu að yfirgefa athafnasvæði fyrirtækis í miðbænum í Reykjavík. Eitthvað hefur þeim snúist hugur, því þegar lögregla kom á svæðið var allt orðið rólegt. 

Maður sem lét eins og óður væri á matsölustað í bænum var fjarlægður af lögreglu eftir að öryggisverðir voru búnir að fylgja honum út af staðnum. Annar drukkinn maður var á ferli og ók lögregla honum heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert