Bjarni: Fráleitt og til skammar

Bjarni Benediktsson ásamt félögum í Eflingu þegar hann var að …
Bjarni Benediktsson ásamt félögum í Eflingu þegar hann var að yfirgefa Ráðherrabústaðinn fyrir hádegi í dag. Skjáskot

„Það kom mér í opna skjöldu að Efling ætti eitthvað ótalað við ríkisstjórnina,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. 

Efling efndi til mótmæla fyrir utan ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu í dag á meðan ríkisstjórnarfundi stóð og sat fyrir ráðherrum. För Bjarna var hindruð og meðal annars öskrað á hann að hann væri rasisti. 

Í deilum við SA, ekki ríkisstjórnina

„Síðast þegar ég vissi eru þau í kjaradeilum við Samtöl atvinnulífsins. Það er ýmislegt gert til að vekja athygli á málsstaðnum og menn verða að vera frjálsir með það,“ segir hann. 

„En ég kann síður við það að menn láti sem svo að ég sé ekki tilbúinn til viðtals þegar menn standa fyrir framan mig með gjallarhorn öskrandi ókvæðisorð,“ bætir hann við. „Ég kalla það ekki samtal og þá er best að yfirgefa vettvanginn.“

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fordómar sem felast í þessum orðum

Þú ert kallaður rasisti. Hver eru þín viðbrögð við því?

„Já, ég vísa því til föðurhúsanna. Það eru miklir fordómar sem felast í þessum orðum.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi við hópinn fyrir framan Ráðherrabústaðinn.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi við hópinn fyrir framan Ráðherrabústaðinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni segir það fráleitt og til skammar að hafa verið kallaður það en kýs að lesa ekki í hvers vegna það kann að vera. 

„Það er kaldhæðnislegt að ég byrjaði daginn klukkan átta í morgun á fundi ráðherranefndar þar sem við vorum að ræða leiðir til að tryggja erlendu vinnuafli greiðari leið inn á íslenskan vinnumarkað.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert