Landsréttur ómerkti í dag dóm Héraðsdóms Reykjaness vegna ummæla héraðsdómara í tölvupósti hans til sækjanda og verjanda við meðferð málsins.
Verjandi ákærða taldi ummælin bera þess vitni að dómarinn væri ekki óhlutdrægur og því hefði hann ekki verið hæfur í málinu.
Af þeim sökum áfrýjaði hann málinu til Landsréttar. Málinu er því vísað aftur til héraðsdóms til löglegrar meðferðar og nýs dóms.
Fyrir héraðsdómi hafði ákærði hlotið sextán mánaða fangelsisdóm auk dóms um að greiða 1.800.000 í miskabætur til fyrrverandi sambýliskonu sinnar vegna ítrekaðs heimilisofbeldis og viðvarandi hótana.
Löng saga ógnana og ofbeldis hefur verið skráð milli ákærða og fyrrverandi konu hans og hafði maðurinn fengið nálgunarbann sem var framlengt nokkrum sinnum árið 2020. Konan hafði farið með börn þeirra tvö í Kvennaathvarfið í nokkur skipti og taldi lögregla að framburður hennar væri trúverðugur og studdur vitnisburði.
Maðurinn hafði gengist við hluta ásakana konunnar, en gerði lítið úr þeim og bar fyrir sig afsökunum eins og reiði og sagði konuna gera of mikið úr framferði sínu.
Í dómi héraðsdóms segir að ákærði „virðist alls ekki átta sig á því að hegðun hans gagnvart brotaþolanum A og börnum þeirra hafi á einhvern hátt verið ámælisverð þvert á það sem rannsóknargögn málsins benda til.“
Nokkrum dögum fyrir fyrirhugaða aðalmeðferð í héraðsdómi fór verjandi ákærða fram á frestun og af því tilefni svaraði héraðsdómari verjanda og sækjanda 25. maí 2021 og dró í efa að ástæður ákærða réttlættu frestun. Svo skrifar hann:
„Þá vek ég athygli á því að ákærði hefur alla vega að hluta til játað sök og virðast rannsóknargögn málsins styðja þær játningar. Mér er til efs að málsvörn ákærða geti orðið til þess að hann geti horfið frá þessum játningum á trúverðugan hátt. Þá hefur ákærða ítrekað verið gert að sæta nálgunarbanni gagnvarteinum brotaþolanum og bendir það nú til þess að ákæran eigi alla vega að hluta til við rök að styðjast.“
Ríkissaksóknari taldi ekki óeðlilegt að dómarinn tjáði sig í póstinum með þessum hætti þar sem hann væri búinn að kynna sér málavexti í þaula. Landsréttur komst að annarri niðurstöðu og málið því aftur komið á upphafsreit.