Íslandshótel hyggjast leyfa tveimur sinna verkafallsvörslu í einu á hótelum fyrirtækisins á meðan verkfalli stendur. Eflingarfólk er hvatt til stillingar í kringum gesti hótelsins.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandshótelum.
„Íslandshótel hafa ávallt virt verkfallsrétt Eflingar. Á sama tíma eru hótel félagsins áfram í dagsdaglegum rekstri, þó með takmörkun á þjónustu sökum verkfalls. Skýrar reglur gilda um þær takmarkanir sem Íslandshótel er bundið af á meðan á verkfalli stendur, sem er hlýtt í einu og öllu,“ segir í tilkynningu.
„Íslandshótel hafa sýnt kröfum Eflingar um eftirlit með verkfalli skilning og boðið félaginu að hafa eftirlit með friðsamlegum hætti, með það fyrir augum að gestir hótelanna fái næði og að starfsmenn sem ekki eru í verkfalli verði ekki fyrir áreiti,“ segir í tilkynningu.
„Við eftirlit Eflingar hafa hins vegar komið upp atvik síðustu daga, sem geta ekki talist til eftirlits með friðsamlegum hætti eða þeirrar gagnkvæmu tillitsskyldu atvinnurekenda og stéttarfélaga sem ber að virða á meðan á verkfalli stendur.
Er vísað til þess að gestir hafa verið áreittir og haft hefur verið í hótunum við starfsfólk sem ekki tilheyrir Eflingu. Jafnframt hefur eftirlit Eflingar á stundum líkst mótmælaaðgerðum, þar sem haft er hátt, fullyrt er um verkfallsbrot og þess krafist að loka eigi hótelunum, án rökstuðnings.
Hefur þetta raskað lögmætri starfsemi félagsins, en það sem alvarlegra er, valdið vanlíðan og óöryggi hjá gestum og starfsfólki. Við það getur Íslandshótel ekki unað.“
„Í ljósi stöðu mála, og með tillitsskyldu aðila að leiðarljósi, hafa Íslandshótel tekið þá ákvörðun að tveimur fulltrúum Eflingar í senn verði veittur aðgangur að hótelunum til eftirlits. Frá því verður ekki kvikað. Með hag allra fyrir brjósti telja Íslandshótel að við þessa leið geti báðir aðilar unað, þannig að eftirlit sé virkt en á sama tíma að líðan og öryggi gesta og starfsfólks sé tryggt.„
„Íslandshótel er í fullum rétti til þess að taka ákvörðun um það hvernig aðgengi að hótelum félagsins er háttað hverju sinni, hvort sem um verkfall sé að ræða eður ei. Er það von Íslandshótela að þessi ákvörðun sé virt, svo ekki komi til atvika sem leiði til ófyrirséðra eða neikvæðra afleiðinga. Sömuleiðis er það einlæg von Íslandshótela að lausn finnist á kjaradeilu Eflingar og SA sem allra fyrst, svo hægt sé að horfa fram á veginn í sátt og samlyndi.
Eftir sem áður getur Efling treyst því að Íslandshótel og starfsfólk þess muni halda áfram að virða verkfallsrétt Eflingar og fara að lögum í einu og öllu á meðan á verkfalli stendur,“ segir í tilkynningu.