Undirbúa mál vegna úttekta Núnú

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Neytendasamtökin búa sig undir að fara með mál fyrir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki vegna úttekta smálánafyrirtækisins Núnú.

Telja samtökin viðskiptavini viðskiptabankanna eiga kröfu á þá.

Þannig er að þau hafa að undanförnu fengið mál þar sem reikningar viðskiptavina bankanna hafa verið tæmdir af smálánafyrirtækinu Núnú. Þegar viðskiptavinir hafa leitað til bankans síns hafa svör verið á þá leið að bankinn geti ekkert gert og þeim bent á að snúa sér til Núnú.

Sýnt ólöglega viðskiptahætti

Að sögn Breka Karlssonar, formanns samtakanna, byggir málið á því fyrirtækið hafi sýnt ólöglega viðskiptahætti þegar reikningar fólks voru tæmdir í upphafi mánaðar án þess að fólk hafi haft tök á því að forgangsraða skuldbindingum.

„Mikil fjölgun hefur í smálánamálum sem koma inn á borð hjá okkur. Það er skýrt dæmi um það hvernig kreppir að í þjóðfélaginu. Fólk fellur í smálánagryfjuna í slíku ástandi,“ segir Breki.

Aðgerð banka sé óheimil 

Umkvörtun samtakanna er tvenns konar. Annars vegar að skuldheimtuheimild Núnú sé óhófleg sem og að bankanum sé ekki heimilt að hafa milligöngu um þá aðgerð að ganga að reikningum fólks.  

„Við teljum að það sé skuldheimtuheimildin sjálf stangist á við 36. grein laga um sanngjarna samningsskilmála og að aðferðin sjálf, að sú aðgerð að tæma bankareikninga í upphafi mánaðar, án þess að fólk hafi greitt leigu og annað samræmist ekki greiðslumynstri fólks," segir Breki.

Beri að endurgreiða fólki 

Telja Neytendasamtökin að bönkum beri að endurgreiða fólki það sem fór af reikningi þeirra og gera bótakröfu á smálánafyrirtækið.

Neytendastofu og fjármálaeftirlitinu hafi einnig verið tilkynnt um þessa viðskiptahætti.

Leiðrétt:

Í fyrstu var fullyrt að Neytendasamtökin hygðust kæra Núnú til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Það er ekki rétt og biðst mbl.is velvirðingar á því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert