Málflutningur Eflingar þjónaði engum tilgangi

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fyrir utan ráðherrabústaðinn í dag.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fyrir utan ráðherrabústaðinn í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að málflutningur eins og hjá Eflingu fyrir utan Ráðherrabústaðinn í dag, þar sem stór orð voru látin falla, þjóni engum tilgangi. Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra var þar meðal annars kallaður rasisti.

Efl­ing efndi til mót­mæla fyr­ir utan Ráðherra­bú­staðinn við Tjarn­ar­götu í dag á meðan rík­is­stjórn­ar­fundi stóð og sat fyr­ir ráðherr­um. 

„Þau stóðu þarna að mótmæla fyrir utan Ráðherrabústaðinn og ég var að tala við fjölmiðla. Þegar ég ætlaði að yfirgefa húsið þá voru þau komin á dyraþrepið svo ég ákvað bara að bjóða þeim inn í húsið ef þau ættu eitthvað vantalað við mig,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.

„Ég hlustaði á þeirra málflutning og svo kvöddumst við. Það var ekkert ákveðið á þessum fundi.“

Katrín segir málið vera í ákveðnu ferli hjá dómstólum og það liggi fyrir að ef aðilar deila um það hvort það sé verið að brjóta lög vegna verkfalla sé Félagsdómur rétti aðilinn til að leita til.

Stór orð látin falla

Katrín segir það vera ljóst að ýmiss stór orð hafi verið látin falla fyrir utan Ráðherrabústaðinn í dag en hún hafi ekki verið vitni að því.

„Ég vil taka undir með miðstjórn ASÍ sem hvetur til hófstillingar. Ég held að svona málflutningur þjóni engum tilgangi,“ segir Katrín.

„Ég hef sagt það margoft að ég styð rétt fólks til þess að berjast fyrir bættum kjörum. Að kalla fólk ókvæðisorðum er ekki rétta leiðin til þess.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert