Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, hyggst bjóða sig fram til nýs embættis ritara flokksins, sem lagt er til að verði stofnað á landsþingi flokksins, sem hefst í dag.
Frá þessu greindi Sigmar á spjallvettvangi flokksins skömmu fyrir hádegi.
„Þótt margt sé vel gert hjá okkur í starfinu er alltaf hægt að gera betur,“ segir Sigmar. „Ég vil gjarnan leggja mitt af mörkum til að stækka Viðreisn, efla grasrótina og breikka forystuna. Það þarf að gerast með meira samtali á milli flokksmanna, félaga innan flokksins og svæða.“
Hann segir að hugmyndauðgina skorti ekki hjá flokknum, en það þurfi einnig að hrinda hugmyndunum í framkvæmd. Þar sé efst á blaði að fá fleiri til liðs við flokkinn og víðar að en raunin hafi verið.
„Það hlýtur svo að vera sérstakt kappsmál hjá okkur að efla flokkinn utan höfuðborgarsvæðisins. Það er hlutverk ritara sem mætti allt eins kalla stækkunarstjóra að leiða þessa vinnu og umfram allt að virkja flokksmenn og þann kraft sem í þeim býr til að rödd Viðreisnar heyrist sem víðast.“
Landsþing Viðreisnar verður sett á Reykjavík Natura Hótel kl. 16.00 síðdegis í dag og verður slitið á sunnudag. Kosning til helstu embætta er fyrirhuguð á laugardeginum, þar á meðal til embættis ritara, nái tillaga um stofnun þess fram að ganga.