Aukafundur fer nú fram í borgarstjórn Reykjavíkur en hann hófst klukkan 15. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar, segir afar sjaldgæft að slíkur fundur sé haldinn og að kostnaður vegna hans geti hlaupið á hundruðum þúsunda króna.
Þrjú mál eru á dagskrá í dag; tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úttekt á Klapp, greiðslukerfi Strætó, tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna um friðlýsingu Esjuhlíða og tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að Reykjavíkurborg vinni gegn útvistun hjá Strætó.
Þórdís Lóa segir ekki síður athyglisvert að aukafundurinn fari fram í ljósi þess að málin sem séu á dagskrá séu ekki í tímaþröng, að hennar mati.
Fundurinn er haldinn að ósk borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokksins í ljósi þess að ekki var unnt að ræða öll þau mál sem voru á dagskrá á borgarstjórnarfundinum sem fór fram á þriðjudaginn.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að flokkurinn hafi óskað eftir aukafundinum í kjölfar þess að meirihlutinn í borgarstjórn hafi ákveðið einhliða að taka tillögurnar af dagskrá borgarstjórnarfundar. Þórdís Lóa kveðst hafa lagt til að málunum yrði frestað fram á næsta borgarstjórnarfund.
Eingöngu þarf þriðjung kjörinna fulltrúa til að óska eftir aukafundi og varð forseti borgarstjórnar því við beiðni þeirra og boðaði til næsta fundar eins fljótt og mögulegt var, sem var í dag klukkan 15.
Að sögn Þórdísar man hún ekki eftir því að aukafundur í borgarstjórn hafi verið boðaður síðastliðin fimm ár.
Heilmikill kostnaður geti fylgt aukafundum, ekki síður vegna þess að það þurfti að boða hann á föstudegi klukkan 15 og þarf því að greiða starfsmönnum yfirvinnu sem hefðu annars hætt fyrr í dag vegna styttingu vinnuvikunnar.
Þá kosti umgjörðin sitt, nefnir hún til að mynda kostnað vegna útsendingu og tæknimála og mögulegan kostnað vegna varamanna sem þarf að kalla til.