Þeim fjölgar sem ná ekki endum saman

Hlutfall þeirra sem ná ekki endum saman mælist í 18%.
Hlutfall þeirra sem ná ekki endum saman mælist í 18%. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hlutfall þeirra sem ná ekki endum saman hefur farið hækkandi en það hefur ekki verið jafn hátt síðan fyrir sjö árum. Sömuleiðis virðist fólk eiga erfiðara með að spara en hlutfall þeirra sem leggja til hliðar pening hefur ekki mælst lægra í sex ár. Þá segist hátt í þriðjungur eiga fjölskyldumeðlim sem býr við fátækt.

Þetta eru niðurstöður þjóðarpúls Gallup sem birtust í morgun um fjárhag heimilanna og fátækt.

Þar kemur fram að fjárhagur heimilanna hafi vænkast jafnt og þétt eftir hrun og hafi verið bestur fyrir tveimur árum í samkomutakmörkunum vegna heimsfaraldurs en þá hafi nærri sjö af hverjum tíu náð að safna sparifé á meðan 6% söfnuðu skuldum eða notuðu sparifé til að ná endum saman. 

Nú fjölgar aftur á móti í hópnum sem nær ekki endum saman en hlutfall þeirra stendur nú í 18% og hefur ekki verið hærra í sjö ár, eins og áður kom fram. Hlutfall þeirra sem ná að safna sparifé er 58% og hefur ekki mælst lægra síðan fyrir sex árum.

Graf/Gallup

Fólk milli þrítugs og fimmtugs á erfiðast með að spara

Aldurshópurinn sem nær helst að safna sparifé er fólk undir þrítugu, þar á eftir kemur fólk yfir fimmtugu en þeir sem virðast eiga hvað erfiðast með að leggja pening til hliðar er fólk milli þrítugs og fimmtugs.

Fólk með háskólapróf nær frekar að safna sparifé en fólk með minni menntun að baki.

Tekjuhæsti hópurinn, eða þeir sem hafa 1.250 þúsund krónur í fjölskyldutekjur, nær helst að safna sparnaði. Þau sem hafa fjölskyldutekjur undir 550 þúsund krónum ná síst að gera það.

Þau sem búa í leiguhúsnæði eru líklegri að safna skuldum en þau sem búa í eigin húsnæði eða í foreldrahúsum.

Þriðjungur á fjölskyldumeðlim sem býr við fátækt

Þegar spurt var út í fátækt kemur fram að ríflega 32% segja einhvern í fjölskyldu sinni búa við fátækt. Fjölskylda var skilgreind sem væði allra nánasta fjölskylda og nánir ættingjar eins og frændur og frænkur. 

Þeir sem búa á landsbyggðinni eru líklegri en íbúar höfuðborgarsvæðisins til að segja einhvern í fjölskyldu sinni búa við fátækt. Það sama á við um þau sem hafa minni menntun, þau sem hafa lægstar fjölskyldutekjur og kjósendur Flokks fólksins eða Sósíalistaflokks Íslands.

Graf/Gallup
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert